Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 186. máls.

Þskj. 187  —  186. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna
frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumannsembætta.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988, með síðari breytingu.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Lög þessi taka til sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt skipulagsskrá staðfestri af sýslumanni samkvæmt lögum þessum eða samkvæmt skipulagsskrá staðfestri af dómsmálaráðherra eða forseta Íslands eða konungi, sbr. þó 2. mgr. Dómsmálaráðherra ákveður hvaða sýslumaður fer með framkvæmd laga þessara.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytis.

2. gr.

    Í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í 1. og 3. mgr. 2. gr., 1. og 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr., 5. gr. og í 1. mgr. og 1. og 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. og orðsins „dómsmálaráðuneytis“ í 2. málsl. 7. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.

II. KAFLI

Breyting á hjúskaparlögum,

nr. 31/1993, með síðari breytingum.

3. gr.

    86. gr. laganna orðast svo:
    Halda skal allsherjarskrá um kaupmála, sem skráðir hafa verið, hjá sýslumanni sem dóms- og kirkjumálaráðherra hefur falið að halda slíka skrá. Sýslumanni ber, þegar eftir að kaupmáli hefur verið skráður, að senda hlutaðeigandi sýslumanni tilkynningu um kaupmálann þar sem greina skal nöfn aðila, kennitölur þeirra og heimili og enn fremur viðtökudag kaupmála.
    Í lok hvers mánaðar skal auglýsa í Lögbirtingablaði það sem þann mánuð hefur verið tekið á kaupmálaskrá sýslumanns.

III. KAFLI

Breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,

nr. 36/1993, með síðari breytingum.

4. gr.

    1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo:
    Útfararþjónustu mega þeir einir reka sem hafa til þess leyfi sýslumanns. Dóms- og kirkjumálaráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingar verði á hendi eins sýslumanns. Synjun sýslumanns um veitingu leyfis er kæranleg til dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Ráðherra setur nánari reglur um leyfisveitinguna í reglugerð.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota,

nr. 69/1995, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bótanefnd tekur ákvörðun um hvort endurkrefja skuli tjónvald vegna bóta sem ríkissjóður hefur greitt.

V. KAFLI

Breyting á lögum um öryggisþjónustu,

nr. 58/1997, með síðari breytingu.

6. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 1. gr. laganna kemur: ríkislögreglustjóra.

7. gr.

    Í stað orðsins „ráðuneytinu“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: embætti ríkislögreglustjóra.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 1. mgr. kemur: Ríkislögreglustjóri.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Ríkislögreglustjóri hefur eftirlit með starfsemi leyfishafa sem ber að veita ríkislögreglustjóra allar nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi sína og önnur atriði sem þýðingu hafa. Til að sinna eftirliti hafa starfsmenn ríkislögreglustjóra án dómsúrskurðar aðgang að starfsstöð leyfishafa.

9. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, 1. mgr., svohljóðandi:
    Ákvarðanir ríkislögreglustjóra samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytis.

VI. KAFLI

Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999.

10. gr.

    1. gr. laganna orðast svo :
    Sýslumaður veitir leyfi til ættleiðingar. Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingar skv. II.–VI. kafla laga þessara verði á hendi eins sýslumanns.

11. gr.

    Í stað orðanna „dómsmálaráðuneytisins eða sýslumanni“ í 1. mgr. 8. gr. og 9. gr. laganna kemur: sýslumanns.

12. gr.

    Í stað orðsins „dómsmálaráðuneytið“ í 15. gr. og í 2. málsl. 1. mgr. 30. gr., orðsins „dómsmálaráðherra“ í 1. mgr. 18. gr., 1. mgr. 19. gr., 21. gr., 1. og 3. mgr. 22. gr., 29. gr., 1. mgr. 32. gr., 2. mgr. 37. gr. og 2. mgr. 38. gr., orðsins „ráðherra“ í 2. mgr. 18. gr. og 4. mgr. 32. gr. og orðsins „dómsmálaráðuneytis“ í 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.

13. gr.

    1. mgr. 17. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skal skipa nefnd sem veitir umsagnir í ættleiðingarmálum sem sýslumaður eða ráðuneytið leggur fyrir hana. Ráðherra getur falið nefndinni fleiri verkefni og sett nánari reglur um störf hennar.

14. gr.

    Við 20. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilum máls er heimilt að kæra synjun sýslumanns um ættleiðingu til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar.

15. gr.

    Við 33. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Aðilum máls er heimilt að kæra synjun sýslumanns um forsamþykki til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu úrskurðar.

    VII. KAFLI


Breyting á lögum um dómtúlka og skjalaþýðendur, nr. 148/2000.


16. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Umsókn um löggildingu skal beint til sýslumanns. Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða að löggilding skuli vera á hendi eins sýslumanns. Umsækjandi skal leggja fram gögn til stuðnings því að hann fullnægi skilyrðum 2. gr. Hann skal vinna að því skriflegt heit að viðlögðum drengskap að hann muni rækja af trúmennsku og samviskusemi öll þau störf sem honum kunna að verða falin sem dómtúlki eða skjalaþýðanda og gæta fyllsta trúnaðar gagnvart viðskiptamönnum sínum. Fyrir útgáfu löggildingar skal greiða gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
     b.      Í stað orðsins „Dómsmálaráðherra“ í 2. mgr. kemur: Sýslumaður.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Dómtúlkar og skjalaþýðendur skulu tilkynna sýslumanni hvar starfsstöð þeirra er og breytingar á henni. Hlutaðeigandi sýslumaður skal halda skrá um þá sem hafa löggildingu samkvæmt lögum þessum.

17. gr.

    Í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í 5. gr. laganna kemur: sýslumaður.

18. gr.

    Á eftir 6. gr. kemur ný grein, svohljóðandi:
    Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytis.

VIII. KAFLI

Breyting á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa,

nr. 99/2004, með síðari breytingum.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ í 1. mgr. kemur: sýslumanns.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                  Dómsmálaráðherra er heimilt að ákveða að löggilding fasteignasala verði á hendi eins sýslumanns.
     c.      Orðið „ráðherra“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., fellur brott.

20. gr.

    Orðið „ráðherra“ í 1. og 4. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Sýslumaður gefur út löggildingarskírteini fyrir fasteignasala. Synjun sýslumanns um útgáfu löggildingarskírteinis er kæranleg til dómsmálaráðuneytis.
     b.      Í stað orðsins „Ráðherra“ í 6. mgr. kemur: Hlutaðeigandi sýslumaður.
     c.      Í stað orðanna „Í dómsmálaráðuneyti“ í 7. mgr. kemur: Hjá hlutaðeigandi sýslumanni.

22. gr.

    Í stað orðsins „ráðherra“ í 4. mgr. 7. gr., 7. mgr. 22. gr., 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. og orðsins „ráðuneytisins“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur í viðeigandi beygingarfalli: sýslumaður.

    IX. KAFLI


Breyting á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005.


23. gr.

    Við 1. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Dómsmálaráðherra er heimilt að fela sýslumanni að annast útgáfu Lögbirtingablaðs.

X. KAFLI

Breyting á lögum um happdrætti, nr. 38/2005.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Til þess að halda uppi allsherjarreglu og hamla gegn skaðlegum áhrifum á almenning er óheimilt að reka happdrætti nema með leyfi sýslumanns eða öðruvísi sé mælt fyrir um í lögum þessum. Ráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingar verði á hendi eins sýslumanns. Happdrættisleyfið skal bundið nánari skilyrðum í samræmi við lög þessi og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Þá eru hlutaveltur óheimilar nema með leyfi lögreglustjóra.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ákvarðanir sýslumanns um leyfi samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytis.

25. gr.

    Í stað orðsins „Ráðherra“ í 6. gr. laganna kemur: Sýslumaður.

26. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Eftirlit með framkvæmd laga þessara er í höndum sýslumanns. Þó skal dóms- og kirkjumálaráðuneyti fara með eftirlit með happdrættum skv. 2. mgr. 2. gr. Nú er stofnað til sérstaks kostnaðar vegna eftirlitsins með þátttöku sérfróðra manna til að fara yfir skýrslur eða reikninga leyfishafa, sbr. 9. gr., til að fara yfir hugbúnað eða tækjakost leyfishafa eða athuga sérstaklega hvort skilyrðum laga þessara sé fullnægt, og er þá heimilt að krefja viðkomandi leyfishafa um greiðslu á kostnaði sem stofnað er til í þessu skyni.

XI. KAFLI

Gildistaka.

27. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og er það liður í áformum dóms- og kirkjumálaráðherra um að efla og styrkja sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins með flutningi verkefna og starfa frá ráðuneytum og stofnunum til embættanna. Lagt er til að eftirfarandi verkefni verði flutt:
          Sjóðir og skipulagsskrár.
          Allsherjarskrá um kaupmála.
          Leyfi til að reka útfararþjónustu.
          Málefni bótanefndar.
          Leyfi til að annast öryggisþjónustu í atvinnuskyni.
          Leyfi til ættleiðingar.
          Löggilding dómtúlka og skjalaþýðenda.
          Löggilding fasteignasala.
          Útgáfa Lögbirtingablaðs.
          Happdrættisleyfi og eftirlit.
    Auk þess að efla og styrkja sýslumannsembættin er ætlunin að flýta fyrir afgreiðslu mála og létta af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu verkefnum sem teljast til svokallaðra afgreiðsluverkefna ráðuneytisins. Þannig verður ráðuneytið betur í stakk búið til að sinna öðrum verkefnum, svo sem stefnumótun, setningu reglugerða, úrskurðum sem æðra stjórnvald, alþjóðlegu samstarfi o.fl. Ráðuneytið mun eftir sem áður fara með yfirstjórn þeirra málaflokka sem í frumvarpinu greinir.
    Vegna smæðar sumra sýslumannsembætta og takmarkaðs málafjölda í sumum málaflokkum er nauðsynlegt að dóms- og kirkjumálaráðherra geti falið einum sýslumanni að annast tiltekinn málaflokk. Er það fyrirkomulag því almennt lagt til í frumvarpinu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir veigamikilli breytingu varðandi úrræði aðila máls til að fá stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða. Almennt eru ákvarðanir lægra setts stjórnvalds kæranlegar til æðra stjórnvalds. Ákvarðanir sýslumanna í þeim málum sem frumvarpið gerir ráð fyrir að þeim verði falin verða því samkvæmt almennum reglum kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins. Til að taka af allan vafa um að ákvarðanirnar séu kæranlegar er lagt til að mælt verða sérstaklega fyrir um kæruheimild til ráðuneytisins. Er þetta fyrirkomulag um tvö stjórnsýslustig í samræmi við þau meginviðhorf í stjórnsýslurétti að aðili stjórnsýslumáls geti fengið stjórnvaldsákvörðun endurskoðaða hjá öðru stjórnvaldi en því sem ákvörðunina tók. Eðli máls samkvæmt sæta þau mál sem ráðuneytið tekur nú ákvarðanir í ekki endurskoðun annars stjórnvalds. Flutningur verkefna til sýslumanna og kæruheimild til ráðuneytisins stuðlar þannig að auknu réttaröryggi í stjórnsýslunni. Um stjórnsýslukærur, svo sem um kærufrest o.fl., fer samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, nema lög kveði á um annað. Þá girðir slík kæruheimild ekki fyrir það að aðila máls er almennt heimilt að bera stjórnvaldsákvörðun undir dómstóla, án þess að kæruleið sé tæmd, nema lög mæli fyrir um annað.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum staðfestir dómsmálaráðuneytið skipulagsskrár fyrir sjóði og sjálfseignarstofnanir að uppfylltum skilyrðum laganna og heldur skrá yfir slíkar stofnanir. Þá tekur ráðuneytið ákvörðun um hvort breyta megi staðfestri skipulagsskrá eða hvort sjóður/stofnun verði lögð niður eða sameinuð annarri. Jafnframt tekur það ákvörðun um hvort heimila eigi veðsetningu eða sölu á fasteign í eigu sjóðs eða stofnunar. Ráðuneytið getur óskað eftir við lögreglustjóra að hann taki í sínar vörslur skjöl og eignir sjóðs eða stofnunar ef reikningum og skýrslum er ekki skilað til Ríkisendurskoðunar á tilskildum tíma.
    Fjöldi mála af þessu tagi sem berst ráðuneytinu á ári er á bilinu 40 til 50. Verkefni þetta hentar vel til að ná þeim markmiðum sem gerð var grein fyrir í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu. Er því lagt til að dómsmálaráðherra feli ákveðnum sýslumanni að fara með framkvæmd laganna. Lögin taka eftir sem áður til sjóða og stofnana sem starfa skv. skipulagsskrá sem staðfest hefur verið af dómsmálaráðherra frá 1. janúar 1989 eða forseta Íslands eða konungi fyrir þann tíma.
    Þá er í samræmi við það sem fram kemur í almennum athugasemdum frumvarpsins, um aukið réttaröryggi og stjórnsýslukærur, lagt til að ákvarðanir sýslumanns verði kæranlegar til dómsmálaráðuneytis eftir almennum reglum.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum eru kaupmálar skráðir í kaupmálabók sem sýslumenn halda. Allsherjarskrá um skráða kaupmála hjá sýslumönnum hefur verið haldin í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Verkefni þetta hentar afar vel til að ná markmiðum frumvarpsins. Er því lagt til að ráðherra feli sýslumannsembætti að halda slíka skrá. Ber sýslumanni, eftir að kaupmáli hefur verið skráður, því að senda hlutaðeigandi sýslumanni tilkynningu um kaupmálann í stað ráðuneytisins nú. Með sama hætti verður sýslumanni falið að auglýsa í Lögbirtingablaði í lok hvers mánaðar það sem þann mánuð hefur verið tekið á kaupmálaskrá hans.

Um 4. gr.


    Þeir einir mega reka útfararþjónustu sem hafa til þess leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Nánari reglur um leyfisveitinguna er að finna í reglugerð þar sem kveðið er á um umsóknir um leyfi, skilyrði o.fl.
    Lagt er til að leyfisveitingar þessar verði fluttar til sýslumanna. Æskilegt er þær verði á hendi eins sýslumannsembættis og gerir frumvarpið því ráð fyrir heimild ráðherra til að ákveða að þær verði á hendi eins sýslumanns á landsvísu.
    Þá er gert ráð fyrir að synjun sýslumanns um útgáfu leyfis verði kæranleg til ráðuneytisins.

Um 5. gr.


    Ákvörðun um greiðslu bóta til þolenda afbrota er tekin af sérstakri nefnd, bótanefnd. Nefndin ákveður hvort skilyrði bótagreiðslu séu til staðar og ákveður fjárhæð bóta. Þegar dómur hefur gengið um bótakröfuna er almennt miðað við að bætur verði greiddar í samræmi við niðurstöður hans.
    Almennt er gert ráð fyrir að málsmeðferð fyrir nefndinni sé skrifleg og byggir nefndin á þeim gögnum sem tjónþoli leggur fram með umsókn. Hingað til hefur dómsmálaráðuneytið annast umsýslu vegna nefndarinnar. Töluverð samskipti eru milli nefndarinnar og ráðuneytisins. Það tekur á móti öllum umsóknum og tilkynningum um bætur og þegar nefndin hefur tekið ákvörðun í máli annast ráðuneytið tilkynningar til tjónþola um niðurstöðu máls. Þegar ákvörðun lýtur að greiðslu bóta felur ráðuneytið Fjársýslu ríkisins að greiða bæturnar og þegar ráðuneytið hefur ákveðið hvort endurkrefja skuli tjónvald, felur það einnig fjársýslunni að endurkrefja tjónvald.
    Undirfarin ár hefur fjöldi umsókna um bætur til þolenda afbrota farið sívaxandi. Bótanefnd hefur verið yfirhlaðin störfum, þar sem nefndarmenn sinna störfum í bótanefnd sem aukastarf til hliðar við föst störf sín á öðrum vettvangi. Mikilvægt er að tryggja nefndinni betra starfsumhverfi. Því hefur þótt ákjósanlegt að flytja þetta verkefni til sýslumanns. Núgildandi lög mæla ekki sérstaklega fyrir um hver skuli fara með umsýslu vegna nefndarinnar. Til þess að geta tekið yfir það hlutverk sem dómsmálaráðuneytið hefur gegnt þarf því ekki að koma til breytinga á lögunum og hefur öll umsýsla varðandi mál hjá nefndinni og afgreiðsla þeirra þegar verið flutt til embættis sýslumannsins á Siglufirði.
    Í greininni er lagt til að bótanefnd verið falið að ákveða hvort og í hvaða mæli eigi að endurkrefja tjónvald fyrir bætur, sem ríkissjóður hefur greitt tjónþola, en ráðuneytið hefur hingað til tekið ákvörðun um endurkröfur. Eðlilegt er að þetta verði frekar í höndum bótanefndar.

Um 6. gr.


    Samkvæmt núgildandi lögum um öryggisþjónustu þarf leyfi dómsmálaráðherra til að annast öryggisþjónustu í atvinnuskyni. Ráðuneytið metur hvort umsækjandi uppfylli sett skilyrði og mælir fyrir um að fella skuli úr gildi leyfi til að annast öryggisþjónustu ef leyfishafi fullnægir ekki lengur settum skilyrðum. Sama gildir ef verulegur misbrestur hefur orðið á þjónustunni eða ekki hefur verið gætt skilyrða, sem leyfi er bundið við. Þá hefur ráðuneytið eftirlit með starfsemi leyfishafa og hafa starfsmenn ráðuneytisins í því skyni, án dómsúrskurðar, aðgang að starfsstöð leyfishafa.
    Öryggisþjónustustarfsemi er um margt áþekk hlutverki lögreglu. Er því lagt til að ríkislögreglustjóra verði falið að veita leyfi til að annast öryggisþjónustu.

Um 7. og 8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Greinin mælir fyrir um að ákvarðanir ríkislögreglustjóra séu kæranlegar til dómsmálaráðuneytis. Hér vísast til þess sem segir í almennum athugasemdum um stjórnsýslukærur.

Um 10. gr.


    Ættleiðingamálum hefur fjölgað talsvert hin síðari ár. Á árinu 2005 voru stjúpættleiðingar 28, ættleiðingar íslenskra fósturbarna 7 og ættleiðingar erlendra barna 39. Vinnsla þessara mála er alfarið skrifleg, ef undan er skilin staðfesting á samþykki ásamt leiðbeiningu um réttaráhrif hennar, en slíkrar staðfestingar hefur um árabil mátt leita, hvort sem er hjá dómsmálaráðuneytinu eða sýslumönnum. Fer vel á því að þessari stjórnsýslu sé sinnt utan höfuðborgarsvæðisins. Málaflokkurinn fellur vel að þeim verkefnum sem sýslumenn fara þegar með, en þeir hafa með höndum margvísleg sifjamál. Mikilvægt er hins vegar að þessi mál séu á einni hendi vegna þess hve sérhæfð þau eru og vegna takmarkaðs málafjölda. Er því lagt til að dómsmálaráðherra geti falið einum sýslumanni leyfisveitingar.

Um 11. gr.


    Gert er ráð fyrir að vottun og leiðbeining skv. 8. gr. laganna verði einungis í höndum starfsmanna sýslumannsembætta, en ekki jafnframt hjá ráðuneytinu, í ljósi þess að það verður nú æðra stjórnvald þegar kemur að leyfisveitingum í ættleiðingarmálum. Tekið skal fram að heimild ráðherra til að fela einum sýslumanni leyfisveitingar tekur ekki til þeirrar leiðbeiningar og vottunar sem mælt er fyrir um í 8. gr. laganna, enda hagræði af því að borgararnir geti leitað til næsta embættis í þessu skyni.

Um 12. gr.


    Ein þeirra breytinga sem gerð er tillaga um í fumvarpinu lýtur að 22. gr. laganna. Þar er ákvæði um dómsmál vegna ákvörðunar um veitingu ættleiðingarleyfis þótt samþykki lögbærra manna liggi ekki fyrir, sbr. 19. gr. laganna. Þeir geta þá innan 30 daga frá því að þeim barst ákvörðunin borið fram kröfu fyrir héraðsdómi um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Hefur þótt nauðsynlegt að hafa hér skamman málshöfðunarfrest í því skyni að hraða niðurstöðu máls. Í frumvarpi þessu er ekki gert ráð fyrir að ákvarðanir sýslumanns um veitingu leyfis skv. 19. gr. laganna verði kæranlegar til dómsmálaráðuneytis. Er þetta fyrirkomulag í samræmi við þau sjónarmið að mikilvægt er að hraðað málum þessum.
    Jafnframt er hér lagt til með breytingu á 30. gr. laganna að heimild sýslumanns nái bæði til þess að gefa út ættleiðingarleyfi og forsamþykki til ættleiðinga.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Við það er miðað að dómsmálaráðherra fari áfram með skipunarvald í ættleiðingarnefnd, en nefndin mun samkvæmt frumvarpi þessu veita sýslumanni umsagnir í ættleiðingarmálum ekki síður en ráðuneytinu.

Um 14. gr.


    Gert er ráð fyrir því að ákvarðanir sýslumanns um synjun ættleiðingar verði kæranlegar til dómsmálaráðherra. Mælt er fyrir um að kærufrestur verði tveir mánuðir þar sem miklu skiptir fyrir hagsmuni aðila að mál verði leidd til lykta skjótt. Í sifjarétti eru dæmi þess að kveðið sé á um styttri kærufrest en samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, sbr. 78. gr. barnalaga, 76/2003.

Um 15. gr.


    Hér er mælt fyrir um að synjun sýslumanns um forsamþykki sé kæranleg til dómsmálaráðuneytis, með sama hætti og 14. gr. frumvarpsins kveður á um heimild til að kæra synjun ættleiðingar.

    Um 16. gr.


    Í greininni er lagt til að löggilding dómtúlka og skjalaþýðenda verði flutt til sýslumanna eða verði á hendi eins embættis samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 18. gr.


    Í samræmi við það sem fram kemur í almennum athugasemdum er mælt fyrir um að ákvarðanir sýslumanns verði kæranlegar til dómsmálaráðuneytis.

Um 19. gr.


    Með lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, sem gildi tóku 1. október 2004, var eftirlit með starfsemi fasteignasala flutt úr ráðuneytinu til sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar, eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með því að fasteignasalar starfi í samræmi við fyrirmæli laganna, siðareglur Félags fasteignasala og góðar venjur í fasteignasölu. Reglubundið eftirlit með fasteignasölum er því ekki lengur í ráðuneytinu og hefur reynslan af fyrirkomulagi þessu verið góð.
    Hlutverk ráðuneytisins nú varðandi starfsemi fasteignasala er eftirfarandi:
          Ráðuneytið veitir fasteignasala löggildingu. Þegar beiðni kemur um löggildingu eða endurveitingu löggildingar skoðar ráðuneytið hvort skilyrði til veitingar eru uppfyllt og veitir eða synjar um löggildingu. Þá tilkynnir fasteignasali til ráðuneytisins ef hann hættir starfsemi og afhendir þá ráðuneytinu löggildingu sína.
          Ráðuneytið heldur skrá yfir þá sem hafa löggildingu fasteignasala og tekur við tilkynningum um starfsstöð þeirra.
          Fasteignasali getur skotið til ráðuneytisins ákvörðunum eftirlitsnefndarinnar um að veita honum áminningu, svipta hann tímabundið réttindum, loka starfsstöð hans og gera honum að greiða málskostnað. Eftirlitsnefndin getur skotið til ráðuneytisins máli fasteignasala sem sviptur hefur verið tímabundið löggildingu og krafist ótímabundinnar löggildingar.
          Þá getur eftirlitsnefndin óskað eftir því við ráðuneytið að starfsstöð þess er stundar fasteignasölu án löggildingar sé lokað.
    Lagt er til að veiting og endurveiting löggildingar fasteignasala verði flutt til sýslumanna. Á liðnum árum hefur fjöldi slíkra mála aðallega farið eftir fjölda þeirra sem útskrifast úr námi fyrir fasteignasala. Þannig luku 48 námi í júní á þessu ári. Þá fer fjöldi mála eftir því hvort fasteignasali hættir starfsemi eða tekur hana upp. Gera má ráð fyrir að málafjöldi sé um 60 mál á ári. Hingað til hefur aðeins tveimur málum vegna ákvarðana eftirlitsnefndar verið skotið til ráðuneytisins.
    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á því að dómsmálaráðherra setji skilyrði um prófraun og tryggingar fyrir þá sem hafa í öðru EES-ríki fengið löggildingu til að starfa sem fasteignasalar eða leyfi til málflutnings.

Um 20. gr.


    Í 19. gr. frumvarpsins, sem á við 1. gr. laganna, er mælt sérstaklega fyrir um að sýslumaður veiti löggildingu til að annast sölu fyrirtækja og skipa. Óþarfi er því að kveða á um í 2. gr. laganna, um skilyrði löggildingar, að sýslumaður veiti löggildingu í stað ráðherra nú.

Um 21. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 22. gr.


    Hér er m.a. gerð tillaga um breytingu á 25. gr. laganna, en nokkuð hefur verið um beiðnir frá eftirlitsnefnd um að dómsmálaráðuneytið hlutist til um að starfstöð sé lokað í þeim tilvikum sem fasteignasala er stunduð af ólöggiltum aðila. Þessar beiðnir ættu að fara beint til sýslumanns. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 23. gr.


    Í greininni er lagt til að ráðherra verði heimilað að fela sýslumanni að annast útgáfu Lögbirtingablaðs. Er þetta liður í flutningi verkefna frá ráðuneytinu til sýslumannsembætta. Hér vísast til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 24. gr.


    Með lögum um happdrætti, nr. 38/2005, sem öðluðust gildi 1. júlí 2005, var dómsmálaráðherra heimilað að ákveða með reglugerð að sýslumenn annist leyfisveitingar fyrir minni háttar happdrættum þar sem heildarfjárhæð vinninga fer eigi fram úr nánar tilteknum fjárhæðum. Þá gat ráðherra heimilað að sýslumenn veittu leyfi fyrir staðbundnum veðmálahappdrættum. Sett hefur verið reglugerð, nr. 530 frá 12. júní 2006, um leyfisskyld happdrætti.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að fluttar verði aðrar leyfisveitingar happdrætta samkvæmt lögunum og eftirlit með happdrættum til sýslumanna eða það verði á hendi eins sýslumanns sem ráðherra ákveður. Eftirlit með lögbundnum happdrættum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, verður þó áfram í höndum dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
    Mælt er fyrir um að ákvarðanir sýslumanns um leyfi verði kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins.

Um 25.–27. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings


verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumannsembætta.


    Markmið frumvarpsins er að heimilt verði að flytja tiltekin verkefni til smærri sýslumannsembætta utan höfuðborgarsvæðisins frá aðalskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Um er að ræða svokölluð afgreiðsluverkefni, t.d. útgáfa á tilteknum leyfum, og verður flutningur þeirra því til þess að ráðuneytið verður betur í stakk búið til að fást við meginverkefni sín á borð við stefnumörkun og æðri stjórnsýslu. Gera má ráð fyrir að við flutning verkefna geti fallið til stofnkostnaður og aukinn rekstrarkostnaður hjá viðkomandi sýslumannsembættum en að rekstrargjöld aðalskrifstofu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins lækki einnig í kjölfarið. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 er gert ráð fyrir 15 m.kr. viðbótarfjárveitingu vegna flutnings verkefna af þessum toga. Að öðru leyti verða þessar breytingar ákveðnar og útfærðar nánar fyrir einstök verkefni í samræmi við það útgjaldasvigrúm sem ráðuneytið hefur í langtímaáætlun fjárlaga.